Sóttu stig til Grindavíkur

Selfoss og Grindavík skildu jöfn á Grindavíkurvelli í kvöld, 1-1, þar sem bæði liðin hefðu getað farið með þrjú stig heim.

Stífur vindur var á annað markið og léku Grindvíkingar undan vindi í fyrri hálfleik. Þeir byrjuðu líka betur og léku vörn Selfyssinga grátt í upphafi leiks. Grétar Hjartarson kom Grindavík yfir eftir rúmar tuttugu mínútur en á einhvern ótrúlegan hátt höfðu Grindvíkingar ekki nýtt færi sín fram að því. Jóhann Ólafur átti reyndar góðan leik í marki Selfoss en Grindvíkingar hefðu hæglega getað bætt við mörkum í fyrri hálfleik. Selfyssingar tóku reyndar við sér undir lok fyrri hálfleiks og Kjartan Sigurðsson var m.a. nálægt því að skora.

Selfyssingar hófu að pressa Grindavík strax í upphafi síðari hálfleiks og á 49. mínútu átti Guðmundur Þórarinsson skot í þverslá úr aukaspyrnu. JÖfnunarmark Selfyssinga kom á 57. mínútu og þar var að verki Jón Daði Böðvarsson. Guðmundur tók hornspyrnu sem Jón Daði skallaði í þverslána og inn. Grindvíkingar fengu tvö frábær færi í seinni hálfleik en inn fór boltinn ekki. Selfyssingar voru meira með boltann á lokakaflanum en fengu fá færi og niðurstaðan var 1-1 jafntefli. Úrslitin verða að teljast sanngjörn þó að leikmenn beggja liða hafi gengið svekktir af velli.

Þetta er fyrsta stig Selfyssinga síðan í 4. umferð og þó að sigur hafi ekki náðst telur hvert stig í botnbaráttunni.