Sólon sigraði í einstaklingskeppninni

Sólon Morthens varð efstur í Uppsveitadeild Loga, Smára og Trausta árið 2016. Þetta var ljóst á lokakvöldi keppninnar sem fram fór fyrir skömmu.

Þar fór Sólon með sigur af hólmi töltkeppninni á hryssunni Ólínu frá Skeiðvöllum í Holtum. Keppnin, sem haldin er í samstarfi við Flúðasveppi var afar hörð og spennandi og húsfyllir á lokakvöldinu í reiðhöllinni í Torfdal við Flúðir.

Í liðakeppni varð lið Hrosshaga og Sunnuhvols í fyrsta sæti með 217 stig í heildina en lið Pálmatrés varð í öðru sæti með 192,5 stig. Í þriðja sæti varð svo lið Vesturkots með 172 stig í heildina. Alls kepptu átta lið í mótinu að þessu sinni.

Góð tilþrif sáust í forkeppni töltsins þar sem Sólon fór mikinn á Ólínu og hlaut einkunina 7,30 og Matthías Leó Matthíasson hlaut 7,27. Jón William Bjarkason varð efstur í B-úrslitum á Stjörnunótt frá Litlu Gröf með 6,77 og vann sér sæti í A-úrslitum þar sem hann setti svo allt í botn og blandaði sér í toppbaráttuna með einkunn upp á 7,56. Lenti hann í öðru sæti í úrslitunum á eftir Sóloni sem náði einkuninni 7,61. Matthías Leó á Dáð frá Jaðri varð í 3. sæti með 7,44, Guðjón Sigurðsson á Lukku frá Bjarnastöðum í fjórða sæti og Finnur Jóhannesson á Kerti frá Torfastöðum í fimmta sæti.

Efnilegir í flugskeiðinu
Glæsilegir skeiðsprettir sáust í keppni í flugskeiði þar sem Árný Oddbjörg Oddsdóttir, efnilegur knapi á hestinum Fálka frá Stóra Hofi, kom sá og sigraði. Árný gerði sér lítið fyrir og náði tveimur bestu tímunum og bætti árangur sinn um nokkur sekúndubrot við hvern sprett. Sigursprettinn fór hún á 2,96 sekúndum. Í öðru sæti var Guðjón Hrafn Sigurðsson á 2,98 á Hrafnhettu frá Minni-Borg og í þriðja sæti varð Finnur Jóhannesson sem rann skeiðið á 3,03 á Tinnu Svört frá Glæsibæ. Allt eru þetta ungir og efnilegir knapar sem eiga framtíðina fyrir sér.

Fyrri greinFjölmörg verkefni í farvatninu
Næsta greinHópslysaæfing á sumardaginn fyrsta