Sóley valin íþróttamaður Hamars

Körfuknattleikskonan Sóley Gíslína Guðgeirsdóttir var útnefnd íþróttamaður Hamars árið 2014 á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær.

Einnig voru íþróttamenn hverrar deildar heiðraðir og þar hlutu viðurkenningu, auk Sóleyjar, þau Hrefna Ósk Jónsdóttir, badminton, Ragnheiður Eiríksdóttir, blak, Anna Sóldís Guðjónsdóttir, fimleikar, Vadim Senkov, knattspyrna, Sverrir Geir Ingibjartsson, hlaup og Dagbjartur Kristjánsson, sund.

Á aðalfundinum var bryddað uppá þeirri nýbreytni að veita gullmerki Hamars fyrir störf í þágu félagsins og hlaut Valdimar Hafsteinsson þá viðurkenningu. Valdimar hefur setið í aðalstjórn Hamars í 20 ár samfleytt, verið formaður í knattspyrnudeild og blakdeild ásamt því að vera í stjórn Laugasports. Valdimari voru þökkuð góð störf í þágu félagsins.

Á aðalfundinum var Hjalti Helgason endurkjörinn formaður. Og auk hans skipa stjórnina þau Friðrik Sigurbjörnsson gjaldkeri, Álfhildur Þorsteinsdóttir, Erla Pálmadóttir og nýr í stjórn er Daði Steinn Arnarson.

Fyrri greinHvaða áhrif hefur ný brú yfir Ölfusá?
Næsta greinSkora á SA að sýna launþegum virðingu