Selfoss tók á móti KA/Þór í hörkuspennandi leik í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld. Gestirnir að norðan höfðu betur þegar upp var staðið í Set-höllinni, 25-27.
Jafnt var á öllum tölum fyrstu þrettán mínútur leiksins en þá skoraði KA/Þór tvö mörk í röð og breytti stöðunni í 7-9. Selfoss jafnaði aftur 10-10 en gestirnir voru skrefinu á undan á lokakafla fyrri hálfleiks og staðan var 15-16 í hálfleik.
KA/Þór byrjaði betur í seinni hálfleik, þær skoruðu fyrstu fjögur mörkin og komust í 15-20. Þá kom 9-1 kafli hjá Selfyssingum og staðan var orðin 24-21 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Norðankonur reyndust hins vegar sterkari á lokakaflanum, Selfoss skoraði ekki mark á síðustu níu mínútum leiksins og KA/Þór sigraði að lokum 25-27.
Eva Lind Tyrfingsdóttir skoraði 6 mörk fyrir Selfoss, Hulda Dís Þrastardóttir 6/3, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 4, Mia Kristin Syverud 2 og þær Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu 1 mark hvor.
Að þremur umferðum loknum er Selfoss á botni deildarinnar án stiga en KA/Þór er með fullt hús stiga í toppsætinu.

