Sóknin hikstaði í seinni hálfleik

Hildur Björk Gunnsteinsdóttir átti fínan leik í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór tapaði 54-75 gegn Ármann í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Hamar vann fyrsta leikinn og er staðan því 1-1 í einvíginu.

Hamar lék án Astaja Tyghter í kvöld en hún er farin heim til Bandaríkjanna af persónulegum ástæðum. Það munar svo sannarlega um minna en Tyghter hefur borið uppi sóknarleik liðsins í vetur.

Hamar-Þór lék mjög vel í fyrri hálfleiknum og staðan var 35-40 í leikhléi en í upphafi seinni hálfleiks stungu Ármenningar af. Hamri-Þór gekk illa í sókninni á þessum kafla og staðan var 41-64 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar minnkuðu þær sunnlensku muninn en bilið var orðið of mikið til þess að þær næðu að brúa það.

Hildur Björk Gunnsteinsdóttir átti fínan leik fyrir Hamar-Þór, skoraði 15 stig og tók 7 fráköst og Hrafnhildur Magnúsdóttir kom næst henni með 14 stig.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Kennaraháskólanum á mánudagskvöld.

Tölfræði Hamars-Þórs: Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 15/7 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 14, Helga María Janusdóttir 9/4 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 6/4 fráköst, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 5, Julia Demirer 5/9 fráköst.

Fyrri greinÖruggur sigur í lokaumferðinni
Næsta greinRangur eða réttur misskilningur?