Sögulegur sigur Uppsveita – KFR fékk skell

Atli Þór Jónasson og Aðalsteinn Örn Ragnarsson fagna sigurmarki Hamars, sem Aðalsteinn skoraði og Atli lagði upp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Uppsveitir unnu góða sigra í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Árborg og KFR töpuðu sínum leikjum.

Hamar vann sterkan sigur á Smára á Grýluvelli. Smáramenn komust yfir eftir fjórtán mínútna leik en Atli Þór Jónasson og Sören Balsgaard skoruðu í kjölfarið fyrir Hamar með fimm mínútna millibili og breyttu stöðunni í 2-1. Þannig var staðan í leikhléi og þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik skoraði Aðalsteinn Örn Ragnarsson þriðja mark Hamars eftir einkar glæsilegan undirbúning Atla Þórs. Það reyndist sigurmark leiksins en Smári náði að minnka muninn á 71. mínútu og þar við sat.

Uppsveitir tóku Berserki/Mídas í kennslustund á Flúðavelli. Leikurinn var algjör einstefna, Uppsveitamenn skoruðu fimm mörk í fyrri hálfleik og bættu svo við fjórum mörkum í seinni hálfleiknum. Lokatölur 9-0 og George Razvan gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk fyrir Uppsveitamenn. Pétur Geir Ómarsson og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson létu sér nægja eitt mark hvor. Leikurinn í kvöld fer í sögubækurnar en þetta er stærsti sigurinn Uppsveita á Íslandsmótinu frá upphafi en í fyrra vann liðið 7-1 sigur á KFB.

Árborg byrjaði með látum í heimsókn sinni á Álftanesið og Sindri Þór Arnarson kom þeim yfir eftir aðeins þrjátíu sekúndna leik. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en þetta var hörkuleikur þar sem bæði lið áttu góðar sóknir. Hagur Árborgar hefði átt að vænkast á upphafsmínútum seinni hálfleiks þegar leikmaður Álftaness fékk að líta rauða spjaldið en manni fleiri spiluðu Árborgarar illa úr sínum spilum og þegar leið á tók Álftanes völdin og skoraði tvívegis – sigurmarkið á sjöttu mínútu uppbótartímans – og lokatölur urðu 2-1.

Að lokum fékk KFR vænan skell þegar liðið heimsótti Siglingafélagið Ýmir í Kópavoginn. Heimamenn reyndust mun sterkari og unnu að lokum 10-1 sigur. Ýmir komst í 7-0 áður en Bjarni Þorvaldsson lagaði stöðuna fyrir Rangæinga eftir góða sendingu frá Trausta Rafni Björnssyni. Andlausir leikmenn KFR komust ekki nær og Ýmir bætti við þremur mörkum til viðbótar.

Staðan í D-riðlinum er þannig að Hamar er í 2. sæti með 6 stig og KFR í 3. sæti með 4 stig. Í C-riðlinum eru Uppsveitir í toppsætinu með 6 stig en Árborg er í 3. sæti með 3 stig.

Fyrri greinSkrifuðu undir málefnasamning í Lystigarðinum
Næsta greinSumarlestur í Sunnulæk