Sögulegur sigur Þjótanda

Verðlaunapallur í 60 m hlaupi karla. (F.v.) Brynjar Jón Brynjarsson, Þjótanda (silfur), Stefán Narfi Bjarnason, Þjótanda (gull) og Bjarki Óskarsson, Umf Þór (brons). sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennafélagið Þjótandi í Flóahreppi sigraði stigakeppni héraðsmóts HSK í frjálsum íþróttum sem haldið var í íþróttahöllinni í Kaplakrika í Hafnarfirði síðastliðinn sunnudag.

Lokastaðan í stigakeppninni var sú að Þjótandi fékk 39 stig, Umf. Selfoss varð í 2. sæti með 36 stig og Þór Þorlákshöfn í 3. sæti með 23 stig.

Þetta er í fyrsta sinn sem Þjótandi sigrar í stigakeppninni en einn af forverum félagsins, Umf. Samhygð, vann keppnina einu sinni, árið 1965.

Héraðsmót HSK í frjálsum innanhúss hefur verið haldið árlega frá árinu 1961, í 59 skipti.

Stefán Narfi Bjarnason og Brynjar Jón Brynjarsson skipuðu lið Þjótanda en Stefán sigraði og varð héraðsmeistari í 60 m hlaupi, kúluvarpi, langstökki og hástökki og Brynjar Jón varð í 2. sæti í sömu greinum.

Í kvennaflokki varð Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, fjórfaldur héraðsmeistari, en hún sigraði í 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, hástökki og langstökki.

Fjóla Signý Hannesdóttir er komin á beinu brautina eftir erfið meiðsli á síðustu árum en hún sigraði í fjórum greinum. Til vinstri er Guðrún Dóra Sveinbjarnardóttir, FH, sem keppti sem gestur og til hægri er Unnur Kjartansdóttir, Umf.Bisk, sem keppti í unglingaflokki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGröfutækni bauð lægst í Larsenstræti
Næsta greinTækifæri í ferðaþjónustu