Sögulegur sigur HSK/Selfoss

Álfrún Diljá Kristínardóttir tók við bikarnum sem lið HSK/Selfoss fékk að launum fyrir sigurinn í stigakeppni félagsliða. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppni félagsliða á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfossi um helgina.

Sigur Sunnlendinga á mótinu er sögulegur því með honum er rofin óslitin 17 ára sigurganga ÍR á þessu móti. HSK/Selfoss sigraði með 421,5 stig en ÍR varð í 2. sæti með 379 stig. FH-ingar urðu þriðju með 270 stig.

HSK/Selfoss sigraði einnig stigakeppnina í aldursflokkum 15 ára stúlkna og 15 ára pilta – og í báðum flokkum með miklum yfirburðum.

Aðstæður til keppni voru hinar bestu á Selfossi um helgina enda náðust fjölmargar bætingar, tvö Íslandsmet féllu og tíu mótsmet. Keppendur HSK/Selfoss gerðu sér lítið fyrir og unnu 24 Íslandsmeistaratitla.

15 ára piltarnir rökuðu inn verðlaunum
Veigar Þór Víðisson varð fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára pilta, sigraði í hástökki, stangarstökki, langstökki og kringlukasti, auk þess sem hann var í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi. Með Veigari Þór í sveitinni voru Þórbergur Egill Yngvason, Daníel Breki Elvarsson og Oliver Jan Tomczyk. Oliver Jan bætti við þremur öðrum Íslandsmeistaratitlum í 15 ára flokknum en hann sigraði að auki í 600 m hlaupi, kúluvarpi og sleggjukasti. Þá varð Daníel Breki Íslandsmeistari í spjótkasti í sama flokki.

Í flokki 16-17 ára pilta unnu heimamenn þrjá Íslandsmeistaratitla; Goði Gnýr Guðjónsson sigraði í 800 m hlaupi, Sigurjón Reynisson sigraði í 1.500 m hlaupi og Hreimur Karlsson sigraði í sleggjukasti.

Í flokki 18-19 ára pilta varð Einar Árni Ólafsson tvöfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í kúluvarpi og sleggjukasti og Viktor Karl Halldórsson varð Íslandsmeistari í spjótkasti. Þá varð Róbert Khorchai Angeluson Íslandsmeistari í spjótkasti 20-22 ára pilta.

Álfrún Diljá fjórfaldur meistari
Álfrún Diljá Kristínardóttir varð fjórfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í kringlukasti og sleggjukasti í flokki 15 ára stúlkna og var í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi 15 ára stúlkna. Hún var einnig í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×400 m hlaupi 20-22 ára stúlkna. Með Álfrúnu í 4×100 sveitinni voru Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Þórhildur Arnarsdóttir og Guðlaug Birta Davíðsdóttir en Guðlaug Birta varð einnig Íslandsmeistari í spjótkasti 15 ára.

Í 20-22 ára sveitinni sem sigraði í 4×400 voru auk Álfrúnar þær Hanna Dóra, Erlín Katla Hansdóttir og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir en allar eru þær reyndar 15 og 16 ára. Sveitin hljóp á tímanum 4:46,85 sem er nýtt héraðsmet, bæði í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára. Dýrleif Nanna varð einnig Íslandsmeistari í 1.500 m hlaupi í 15 ára flokknum.

Þá varð Elín Karlsdóttir Íslandsmeistari í 3.000 m hlaupi í flokki 16-17 ára stúlkna og Eva María Baldursdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki 18-19 ára stúlkna.

Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 15 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 15 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ragnheiður Guðjónsdóttir horfir á eftir kúlunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Álfrún Diljá Kristínardóttir var sigursæl á mótinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Elín Karlsdóttir sigraði í 3.000 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Guðlaug Birta Davíðsdóttir mundar spjótið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Veigar Þór Víðisson, Oliver Jan Tomczyk og Daníel Breki Elvarsson voru fastagestir á verðlaunapallinum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sigurjón Reynisson sigraði í 1.500 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þórhildur Arnarsdóttir í þrístökki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sigurlið HSK/Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÖruggt hjá Hamri – KFR tapaði
Næsta greinKlúðruðu spyrnu á planinu við Þingborg