Sögulegur sigur FSu – Þórsarar töpuðu

FSu vann góðan sigur á Grindavík í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld en á sama tíma tapaði Þór Þ. fyrir Keflavík.

Báðir leikirnir voru á útivelli en þetta er í fyrsta skipti sem FSu nær að leggja Grindvíkinga á sterkum heimavelli þeirra gulu.

Grindvíkingar byrjuðu reyndar betur í leiknum og leiddu í hálfleik 46-43. FSu liðið kom ákveðið inn í þriðja leikhlutann og náði strax forystunni, 48-50, eftir rúma eina mínútu. FSu gaf forystuna ekki af hendi eftir það, náði mest níu stiga forskoti og hélt út þó að Grindvíkingar hafi andað ofan í hálsmálið á þeim allan tímann. Lokatölur urðu 85-94.

Lykilmenn FSu áttu allir góðan leik en fremstur í flokki fór Chris Woods með 39 í framlag. Hann skoraði 26 stig og tók 20 fráköst.

Tölfræði FSu: Christopher Woods 26 stig/20 fráköst, Cristopher Caird 21 stig, Ari Gylfason 15 stig/6 fráköst, Gunnar Ingi Harðarson 14 stig, Hlynur Hreinsson 14 stig/7 stoðsendingar, Bjarni Geir Gunnarsson 2 stig, Maciej Klimaszewski 2 stig.

Það gekk ekki eins vel hjá Þórsurum á útivelli í Keflavík. Leikurinn var jafn framanaf en Keflavík náði forskoti undir lok fyrri hálfleiks og leiddi 37-32 í hálfleik. Keflavík gerði svo áhlaup í 3. leikhluta og náðu mest fjórtán stiga forskoti. Þór náði ekki að brúa það bil í síðasta fjórðungnum og lokatölur urðu 91-83.

Tölfræði Þórs: Ragnar Bragason 15 stig/7 fráköst, Vance Hall 14 stig/9 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 14 stig/14 fráköst (24 í framlag), Þorsteinn Már Ragnarsson 11 stig, Halldór Garðar Hermannsson 8 stig, Grétar Ingi Erlendsson 7 stig, Davíð Arnar Ágústsson 6 stig, Emil Karel Einarsson 3 stig/4 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Breki Þórðason 3 stig, Baldur Þór Ragnarsson 2 stig.

Þórsarar eru áfram í 3. sæti deildarinnar með 14 stig en FSu er í 11. sæti með 6 stig og bilið í liðin fyrir ofan styttist.

Fyrri greinStraumlaust í Hrunamannahreppi og Bláskógabyggð í nótt
Næsta greinFjórir Selfyssingar í hóp gegn Portúgal