Sögulegur ósigur Selfyssinga – Botnliðið í brekku

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 9-0 þegar liðið heimsótti Aftureldingu að Varmá í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma tapaði Ægir 5-1 gegn Fjölni.

Leikur Aftureldingar og Selfoss fer í sögubækurnar því þetta er stærsta tap Selfoss á Íslandsmótinu í 31 ár, eða frá því liðið tapaði 9-1 gegn Fylki árið 1992. Þetta er þó ekki stærsta tap Selfyssinga í sögunni því á því herrans ári 1976 tapaði liðið 11-0 gegn ÍBV.

Í stuttu máli sagt stóð ekki steinn yfir steini í leik Selfoss í kvöld, staðan var 3-0 eftir þrettán mínútur og 4-0 í hálfleik. Afturelding hélt áfram að raða inn mörkunum í seinni hálfleiknum, þar af komu þrjú mörk á síðustu fjórum mínútum leiksins.

Botnliðið í brekku
Ægismenn lentu strax í brekku þegar þeir heimsóttu Fjölni í Grafarvoginn en eftir saután mínútur var staðan orðin 2-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Fjölnir skoraði tvisvar á fyrsta korterinu í seinni hálfleik áður en Dimitrije Cokic minnkaði muninn fyrir Ægi en Fjölnismenn áttu lokaorðið og innsigluðu 5-1 sigur á 77. mínútu leiksins.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss erí 10. sæti með 10 stig en Ægir er í botnsætinu með 7 stig.

Fyrri greinTokic semur við Árborg
Næsta greinMér er meinilla við fugla