Sögubók Umf. Þórs orðin hnausþykk

Þór Þorlákshöfn sendi Íslandsmeistara KR í sumarfrí í kvöld með því að sigra 83-80 í fjórða leik liðanna og einvígið þar með 3-1. Nýliðarnir halda því áfram að skrifa árangur sinn í sögubækurnar.

Það var rafmögnuð stemmning í Þorlákshöfn í kvöld en árangur Þórsara er besti árangur sem nýliðar í deildinni hafa nokkru sinni náð – og stemmningin eftir því. Þeirra bíður nú einvígi um Íslandsmeistaratitilinn, annað hvort gegn Grindavík eða Stjörnunni.

Leikurinn var hnífjafn og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokamínútunni. Staðan var 46-45 í hálfleik fyrir þeim grænu og þeir juku forskotið um tvö stig til viðbótar í 3. leikhluta.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 78-74 fyrir Þór. KR jafnaði, 78-78, þegar þrjár mínútur voru eftir en í síðustu sóknunum misstu KR-ingar boltann, fengu á sig ruðningsvillur og hittu ekkert. Þór var með boltann þegar 40 sekúndur voru eftir í stöðunni 82-80, skotið úr þeirri sókn geigaði en Þór náði boltanum aftur og Guðmundur Jónsson skoraði síðasta stigið af vítalínunni þegar tíu sekúndur voru eftir, 83-80.

Darrin Govens var stjarnfræðilega góður í leiknum með 22 stig, 8 fráköst, 10 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Joseph Henley skoraði 16 stig og tók 11 fráköst, Guðmundur Jónsson skoraði 16, Grétar Ingi Erlendsson 12, Blagoj Janev 8, Darri Hilmarsson 7 og Baldur Þór Ragnarsson 2.

Fyrri greinRútuslys í Grafningnum
Næsta greinHrútavinir í hafragraut