Söfnuðu tæpum 400 þúsund krónum fyrir Gígju

Liðin stilltu sér upp saman fyrir leik. Ljósmynd/Þorsteinn Rúnar Ásgeirsson

Allur aðgangseyrir að leik Selfoss og KA/Þórs í bikarkeppni kvenna í handbolta síðastliðið miðvikudagskvöld rann óskiptur til Gígju Ingvarsdóttur og fjölskyldu hennar.

Gígja er 11 ára handboltaiðkandi og ofurhetja á Selfossi sem er að berjast við krabbamein.  Hún á því í harðri baráttu og það reynir eðlilega á fjölskylduna. Það var vel við hæfi að þessi leikur yrði fyrir valinu sem styrktarleikur, en Gígja á fjórar frænkur í liði KA/Þórs.

Þess má geta að allir borguðu sig inn, starfsmenn sem og leikmenn beggja liða, einhverjir lögðu svo frjáls framlög ofan á miðverð sitt.  Alls söfnuðust 386.000 krónur á leiknum.

Handknattleiksdeild Selfoss þakkar öllum sem komu að leiknum innilega fyrir og sendir áframhaldandi baráttukveðjur til Gígju og fjölskyldu hennar.  Selfoss tapaði reyndar leiknum þrátt fyrir flotta framistöðu, 21-29, en nánar má lesa um leikinn hér.

Vakin er athygli á því að hægt er að styrkja Gígju og fjölskyldu hennar með því að leggja inn á styrktarreikning fjölskyldunnar: 0123-15-203456, kt. 110380-5189.

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur fram á nótt
Næsta greinFlutningsbann á alifugla frá Dísukoti