Söfnuðu milljón krónum fyrir Píeta samtökin

Börkur og Gunnar í hlaupinu á laugardag. Ljósmynd/Gummi St.

Ofurhlaupararnir og vinirnir Börkur Reykjalín Brynjarsson og Gunnar Viðar Gunnarsson söfnuðu um 1 milljón króna fyrir Píeta samtökin með 104 kílómetra áheitahlaupi síðastliðinn laugardag.

Börkur og Gunnar hlupu af stað á Varmárvelli í Mosfellsbæ kl. 6:00 og um þrettán klukkustundum síðar var hlaupinu lokið. Þeir hlupu 8 km á hverjum klukkutíma og tóku nokkra mínútna hlé í lok hvers klukkutíma. Fjöldi hlaupafélaga þeirra komu við yfir daginn og slógust í hópinn með þeim og léttu þeim stundirnar í brautinni en á laugardag var hávaðarok og skítakuldi.

„Með hlaupinu vildum við leggja okkar að mörkum til að vekja athygli á Píeta samtökunum og vonandi safna einhverjum peningum fyrir samtökin í leiðinni, enda eru þau algerlega rekin fyrir söfnunarfé og styrkjum,“ segir Börkur.

Þeir sem ekki höfðu tök á að hlaupa en vilja leggja þeim félögum lið í söfnuninni geta millifært frjáls framlög inn á reikning 0301-26-041041, kt. 410416-0690.

Píeta samtökin eru góðgerðasamtök sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum, sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Síðastliðið ár hefur álagið á samtökunum þrefaldast og nýtast allir styrkir beint í starfsemina.

Fjöldi hlaupafélaga slóst í hópinn yfir daginn til þess að létta Berki og Gunnari skrefin. Ljósmynd/Gummi St.
Fyrri grein„Tilgangurinn að koma völdum í hendur fárra aðila“
Næsta greinSmitum fækkar á Suðurlandi