Snorri Þór sigraði í Jósepsdal

Hvergerðingurinn Snorri Þór Árnason gerði sér lítið fyrir og sigraði í 2. umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri sem fram fór í Jósepsdal í dag. Snorri er á sínu fyrsta ári sem keppandi í torfæru.

Snorri er þar með kominn með forystuna á Íslandsmótinu eftir tvær keppnir. Keppnin í Jósepsdal í dag var jöfn og spennandi og töluvert um góð tilþrif.

Snorri, sem ekur Kórdrengnum, sigraði með 1.668 stig og munaði aðeins 42 stigum á 1. og 2. sæti en Elmar Jón Guðmundsson frá Akureyri varð annar á Heimasætunni. Hafsteinn Þorvaldsson á Torfunni lenti svo í 3. sæti með 1.597 stig, aðeins einu stigi á undan Guðbirni Grímssyni og skammt þar á eftir kom Benedikt Sigfússon á Hlunknum í 5. sæti.

Í flokki götubíla varð Ívar Guðmundsson í 3. sæti á Kölska og Eðvald Orri Guðmundsson varð fimmti á Silver Power. Það var Hornfirðingurinn Jón Vilberg Gunnarsson sem sigraði í götubílaflokknum á Snáðanum en hann er með fullt hús stiga að loknum tveimur keppnum.

Staðan í Íslandsmótinu:

Sérútbúinn flokkur
1. Snorri Þór Árnason 32
2. Ólafur Bragi Jónsson 20
3. Guðbjörn Grímsson 16
4. Ingólfur Guðvarðarson 15
5. Gestur Ingólfsson 14
6. Elmar Jón Guðmundsson 15
7. Hafsteinn Þorvaldsson 12
8. Benedikt H. Sigfússon 10
9. Þór Þormar Pálsson 8
10. Guðlaugur S. Helgason 7
11. Daníel G. Ingimundarson 6
12. Haukur Þorvaldsson 3
13. Magnús Sigurðsson 2
14. Eyjólfur Skúlason 1
15. Ragnar Svansson 1

Götubílaflokkur

1. Jón Vilberg Gunnarsson 40
2. Ívar Guðmundsson 27
3. Steingrímur Bjarnason 27
4. Sævar Már Gunnarsson 20
5. Eðvald Orri Guðmundsson 16
6. Sveinbjörn Reynisson 6

Fyrri greinSundhöll Selfoss lokuð næstu daga
Næsta greinIngibjörg NM-meistari í bardaga