Snorri Þór heldur forystunni

Hvergerðingurinn Snorri Þór Árnason leiðir enn stigakeppni Íslandsmótsins í torfæruakstri eftir keppni helgarinnar sem fram fór á Egilsstöðum. Snorri varð í 2. sæti á Kórdrengnum.

Snorri, sem ekur Kórdrengnum, fékk 1.226,8 stig í sérútbúna flokknum og varð að gera sér annað sætið að góðu eftir harða keppni við sigurvegarann Ólaf Braga Jónsson á Refnum og Þór Þormar Pálsson sem varð þriðji á Heimasætunni.

Ásgeir Björn Benediktsson sló föður sínum við og varð í 9. sæti á Hlunknum en Benedikt H. Sigfússon varð tíundi á sama bíl.

Í ár voru veitt í fyrsta skipti á Egilsstaðakeppninni sérstök verðlaun fyrir auka tilþrif yfir heildina. Þetta eru farandverðlaun sem bera nafnið „Rögnvalds jakkafötin“. Þau eru veitt til heiðurs tilþrifameistaranum og Bronco ökumanninum Rögnvaldi Ragnarssyni sem var um árabil ein skærasta tilþrifastjarna austanmanna. Ásgeir Björn varð fyrstur til þess að fagna þessum verðlaunum en honum tókst að velta Hlunknum kl. 9 um morguninn þegar hann var að prófa bílinn fyrir keppni.

Í götubílaflokknum varð Eðvald Orri Guðmundsson í 2. sæti á Silver Power í sinni þriðju keppni. Ívar Guðmundsson varð fjórði á Kölska en Ívar skemmdi stýrisbúnað í fyrstu braut og átti í erfiðleikum með að stýra bílnum eftir það.

Lokaumferðin á Íslandsmótinu fer fram á Akureyri þann 17. ágúst.

Staðan á Íslandsmótinu eftir þrjár umferðir af fjórum

Sérútbúinn flokkur
1. Snorri Þór Árnason 47
2. Ólafur Bragi Jónsson 40
3. Guðbjörn Grímsson 24
4. Ingólfur Guðvarðarson 21
5. Þór Þormar Pálsson 20
6. Elmar Jón Guðmundsson 15
7. Gestur Ingólfsson 14
8. Hafsteinn Þorvaldsson 12
9. Benedikt H. Sigfússon 11
10. Bjarki Reynisson 10
11. Guðlaugur S. Helgason 7
12. Daníel G. Ingimundarson 6
13. Magnús Sigurðsson 5
14. Hlynur Sigbjörnsson 4
15. Haukur Þorvaldsson 3
16. Ásgeir Björn Benediktsson 2
17. Eyjólfur Skúlason 1
18. Ragnar Svansson 1

Götubílaflokkur
1. Jón Vilberg Gunnarsson 60
2. Steingrímur Bjarnason 39
3. Ívar Guðmundsson 37
4. Eðvald Orri Guðmundsson 31
5. Sævar Már Gunnarsson 20
6. Sveinbjörn Reynisson 14

Fyrri greinFyrstu þrír metrarnir í Njálureflinum kláraðir
Næsta greinÞrastarlundur breytist í Bistro