Snæfríður Sól tvöfaldur Íslandsmeistari

Snæfríður Sól (í miðið) á verðlaunapalli í 100 m skriðsundi ásamt Bryndísi Rún Hansen, Óðni og Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttur, SH. Ljósmynd/Aðsend

Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari þegar Íslandsmeistaramótið í sundi í 50 m laug var haldið í Laugardalslauginni í Reykjavík.

Snæfríður Sól synti 100 m skriðsund á laugardag á 57,22 sek og sigraði glæsilega.

Á sunnudag vann hún svo sinn annan titil þegar hún sigraði örugglega í 200 m skriðsundi, sem er hennar sterkasta grein. Snæfríður Sól synti á 2:03,62 mín og var nokkuð frá Íslandsmeti sínu, sem er 2:01,82 mín.

Þriðja grein Snæfríðar var 50 m skriðsund þar sem hún varð í 4. sæti á 27,09 sek.

Kolbrúnarbikarinn veittur fyrir besta afrekið
Snæfríður Sól fór hlaðin verðlaunum heim af Íslandsmeistaramótinu því hún vann líka Kolbrúnarbikarinn, sem veittur er árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi milli Íslandsmeistaramóta. Bikarinn vann hún fyrir 200 metra skriðsund sem hún synti á danska meistramótinu í júlí í fyrra. Þar synti hún á 2:01,81 mínútum, setti nýtt Íslandsmet og fékk fyrir það 797 FINA stig.

Snæfríður fékk einnig afhentan bikar fyrir að vera valinn sundkona ársins 2018, en hún var fjarverandi þegar viðurkenningin var veitt á milli jóla og nýárs.

Sara var nálægt sínu besta
Hin 15 ára gamla Sara Ægisdóttir, Umf. Selfoss, átti gott mót en hún keppti í fjórum greinum og var nálægt sínu besta í þeim öllum. Hún varð í 11. sæti í 50 m skriðsundi á 29,16 sek, 15. sæti í 100 m skriðsundi á 1:04,54, 22. sæti í 200 m skriðsundi á 2:48,15 mín og 25. sæti í 200 m fjórsundi á 2:48,15 mín þar sem hún bætti sig um 0,15 sekúndur.

Fyrri greinÆfðu með úrvalshópi FRÍ
Næsta greinÞingheimur minntist Jóns Helgasonar