Snæfríður Sól sundkona ársins

Snæfríður Sól Jórunnardóttir.

Sundsamband Íslands hefur útnefnt Snæfríði Sól Jórunnardóttur sundkonu ársins 2018.

Snæfríður Sól er 18 ára gömul og býr og æfir í Danmörku í sundfélaginu AGF Svømning. Snæfríður hefur búið í Danmörku síðastliðin 10 ár en hún byrjaði að æfa sundi í Hveragerði áður en hún hóf skólagöngu, undir handleiðslu Magnúsar Tryggvasonar sundþjálfara.

Snæfríður keppti á Ólympíuleikum Ungmenna í Buenos Aires í október þar sem hún náði góðum árangri og varð meðal annars ellefta í 200 m skriðsundi. Hún náði einnig lágmarki á Norðurlandameistaramótið og Heimsmeistaramótið í 25 m laug en ákvað að einbeita sér að dönsku liðameistarakeppninni í staðinn sem er nýafstaðið.

Það skilaði sér í Íslandsmeti í 200 m skriðsundi en fyrr á árinu hafði hún tvíbætt Íslandsmetið í greininni í löngu brautinni á danska meistaramótinu í 50 m laug.

Snæfríður Sól á góða möguleika á þátttöku á Heimsmeistaramótinu í Gwangju í Suður-Kóreu í júlí næstkomandi og Ólympíuleikunum í Tokyo í framhaldinu af því.

Fyrri greinNýr vefur með loftgæðamælingum
Næsta greinEkkert rafmagnsleysi þrátt fyrir bilunina