Snæfríður Sól sundkona ársins

Snæfríður Sól Jórunnardóttir.

Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir var fyrir helgi valin sundkona ársins af Sundsambandi Íslands.

Snæfríður Sól er 20 ára og syndir fyrir Aalborg Svømmeklub í Danmörku. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2020, samkvæmt útgefnum viðmiðum SSÍ.

Snæfríður synti á sínum yngri árum í Hveragerði fyrir Íþróttafélagið Hamar en flutti til Árósa þegar hún var 11 ára. Hún synti fyrir AGF Svømning þar til í haust en þá fylgdi hún þjálfara sínum, Birni Selvejer, til Álaborgar.

Þrátt fyrir miklar sóttvarnarðgerðir hefur Snæfríður stundað æfingar í Danmörku og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Danska meistaramótið fór fram í 25 laug í síðustu viku og þar tvíbætti Snæfríður Sól Íslandsmetið sitt í 200 m skriðsundi um tvær sekúndur.

Á næstu mánuðum mun hún einbeita sér að því að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2021.

Því má svo bæta við að Anton Sveinn McKee, sem valinn var sundmaður ársins, er ættaður frá Selfossi. Hann er sonur Helgu Margrétar Sveinsdóttur og Róberts McKee en Helga Margrét er dóttir Sveins Þórarinssonar og Guðnýjar heitinnar Eyjólfsdóttur á Selfossi.