Snæfríður Sól fer á Ólympíuleikana

Snæfríður Sól Jórunnardóttir. Ljósmynd/ÍSÍ

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir frá Hveragerði hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóðaólympíunefndin staðfesti svo í gær.

Snæfríður Sól hefur staðið sig vel undanfarið og synt mjög vel á síðustu mótum en hún tvíbætti Íslandsmet sitt í 200 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í síðustu viku og varð í 4. sæti. Hún mun keppa í 100 og 200 metra skriðsundi í París.

Nú hafa fjórir Íslendingar tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum en auk Snæfríðar eru það Hákon Þór Svavarsson, skotíþróttamaður úr Skotíþróttafélagi Suðurlands, sundmaðurinn Anton Sveinn McKee sem ættaður er frá Selfossi og þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir.

Fyrri greinSkráning hafin í firmakeppni SSON
Næsta greinÞjóðvegur 1 lokaður til austurs vegna framkvæmda