Hveragerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti í morgun 12 ára gamalt Íslandsmet Ragnheiðar Ragnarsdóttur í 100 m skriðsund á bikarkeppni í Danmörku.
Snæfríður synti á tímanum 53,88 sek en gamla metið var 54,44 sek og var það sett í desember 2010. Þetta er annað Íslandsmet Snæfríðar á tveimur dögum en í gær sló hún eigið met í 200 metra skriðsundi, þar sem hún synti á 1:55,60 mín. Það er sjötti besti árangur Evrópubúa í greininni á þessu sundári.
Snæfríður Sól er greinilega í fínu formi þessa dagana, en bikarkeppnin í Danmörku er liður í undirbúningi hennar fyrir HM í 25 m laug, sem fram fer í Ástralíu í desember.