Snæfríður Sól stóð sig vel í Bergen

Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir náði góðum árangri á Norðurlandamótinu í sundi sem fram fór í Bergen í Noregi um helgina.

Snæfríður varð í 6. sæti í 100 metra skriðsundi í yngri flokki í gær á tímanum 57,39 sek, sem er hennar besti persónulegi árangur. Fyrir mótið hafði hún synt 100 metrana á 59,22 sek en hún bætti sig strax í undanrásunum og synti þá á 57,52 mín um leið og hún tryggði sér sæti í úrslitasundinu.

Tímarnir staðfesta mjög miklar framfarir hjá Snæfríði, sem er 15 ára gömul, en þess má geta að hún á eitt ár eftir í yngri flokknum.

Í dag keppti hún svo í opnum flokki kvenna í 50 metra skriðsundi og varð í 22. sæti á 26,72 sek sem er hennar næst besti tími. Hún á best 26,50 sek.

Snæfríður er fyrsti Sunnlendingurinn til að synda á Norðurlandamóti síðan 2003. Hún æfði sund með Hamri í Hveragerði frá þriggja ára aldri þar til hún flutti til Danmerkur fyrir nokkrum árum. Snæfríður stundaði æfingar mjög samviskusamlega í Laugaskarði og hefur haldið því áfram í með sundfélaginu í Hjortshöj.

Fyrri greinTuttugu eldri lögreglumenn heiðraðir
Næsta greinMílan tapaði fyrir toppliðinu