Smith með stórleik í sigri á Fjölni

Benjamin Smith fór á kostum og skoraði 46 stig fyrir Þórsara sem unnu góðan sigur á Fjölni í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 92-83.

Fjölnir byrjaði betur í leiknum og skoraði fyrstu sjö stigin. Þórsarar vöknuðu eftir það en gestirnir höfðu frumkvæðið fram að leikhléi og leiddu 47-50 í hálfleik. Eins og sjá má á tölunum voru varnir ekki í hávegum hafðar en liðin skoruðu auðveldar körfur á báða bóga.

Í þriðja leikhluta sigu Þórsarar örlítið fram úr. Smith hitnaði meira en góðu hófi gegnir og bauð upp á nokkrar rosalegar þriggja stiga körfur og Fjölnismenn réðu heldur ekkert við hann þegar hann keyrði upp að körfunni.

Síðasti fjórðungurinn var nokkuð þægilegur fyrir Þórsara þar sem Smith hélt áfram einstefnu sinni að körfu Fjölnis en hann skoraði 19 af 21 stigi Þórsara í leikhlutanum. Þór náði mest tólf stiga forystu, 89-77, á lokamínútunni en lokatölur urðu 92-83.

Þórsarar léku án Guðmundar Jónssonar í leiknum og munar um minna auk þess sem nýr liðsmaður, David Jackson, lék sinn fyrsta leik fyrir liðið eftir að honum var skipt út fyrir Robert Diggs. Jackson, leit ágætlega út, spilaði fína vörn og á eflaust eftir að verða mikilvægur fyrir Þórsara.

Smith var stigahæstur Þórsara með 46 stig og 10 fráköst. Darrell Flake skoraði 23 stig og tók 11 fráköst og David Jackson skoraði 11 stig. Darri Hilmarsson var með 9 stig og Baldur Þór Ragnarsson 3.

Umfjöllun karfan.is

Fyrri greinSelfoss mætti ofjörlum sínum
Næsta greinÓvænt tap í Sandgerði