Smári Íslandsmeistari í sínum flokki

HSK maðurinn Smári Þorsteinsson, Umf. Biskupstungna, tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í -80 kg flokki karla í glímu.

Í dag fór fram þriðja og síðasta umferð í meistaramótaröð Glímusambands Íslands. Góð tilþrif sáust á glímuvellinum og ljóst að það stefnir í spennandi Íslandsglímu í vor.

Smári sigraði í -80 kg flokknum í dag og dugði það honum til sigurs á mótaröðinni en hann sigraði einnig í fyrstu umferðinni. Smári varð einnig í 3.-4. sæti í -90 kg. flokki.
Í +65 kg flokki kvenna varð Brynhildur Hrönn Sigurjónsdóttir þriðja í dag og það dugði henni til að verða í 2. sæti á mótaröðinni með 12 stig. Brynhildur fór þar uppfyrir Marín Laufey Davíðsdóttur sem tók ekki þátt í mótinu í dag en Marín varð í 3. sæti á mótaröðinni í þessum flokki með 10 stig.
Marín varð hins vegar í 2. sæti í heildina í opnum flokki kvenna með 10 stig en Brynhildur þriðja með 9 stig.