Slök byrjun í seinni hálfleik gerði eftirleikinn erfiðan

Hamar tapaði 71-75 þegar Keflavík kom í heimsókn í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld. Hamar missti annars jafnan leik frá sér í 3. leikhluta.

Fyrsti leikhlutinn var jafn, Hamar komst í 16-7 en Keflavík minnkaði muninn í 21-19 áður en 1. leikhluta lauk. Gestirnir komust svo yfir á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddu 36-37 í leikhléi.

Þriðji leikhluti var afleitur hjá Hvergerðingum. Keflavík komst fljótlega í 39-44 og gestirnir skoruðu svo þrettán stig í röð síðustu fjórar mínútur 3. leikhluta og breyttu stöðunni snarlega í 44-57.

Hamar vann jafnt og þétt upp forskot Keflavíkur í síðasta fjórðungnum og á síðustu tveimur mínútunum náði Hamar 9-2 áhlaupi og þá var munurinn orðinn aðeins fjögur stig, 68-72. Hins vegar voru bara sautján sekúndur eftir af leiknum þegar þarna var og sá tími dugði Hamri ekki til að komast yfir. Keflavík var komið í bónus og nýtti þrjú af sex vítaskotum sínum á lokasekúndunum og það dugði þeim til sigurs.

Di’Amber Johnson skoraði 26 stig fyrir Hamar, Fanney Lind Guðmundsdóttir 14, Marín Laufey Davíðsdóttir 13, Íris Ásgeirsdóttir 9, Sóley Guðgeirsdóttir 5 og þær Kristrún Rut Antonsdóttir og Katrín Eik Össurardóttir skoruðu tvö stig hvor. Marín og Sóley voru frákastahæstar, báðar með 10 fráköst.

Fyrri greinBjarki Þór ráðinn vallarstjóri GOS
Næsta greinSveitarfélagið styrkir fjölskyldu Heklu Bjargar