Slök byrjun í seinni hálfleik gerði eftirleikinn erfiðan

Hamar tapaði 71-75 þegar Keflavík kom í heimsókn í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld. Hamar missti annars jafnan leik frá sér í 3. leikhluta.

Fyrsti leikhlutinn var jafn, Hamar komst í 16-7 en Keflavík minnkaði muninn í 21-19 áður en 1. leikhluta lauk. Gestirnir komust svo yfir á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddu 36-37 í leikhléi.

Þriðji leikhluti var afleitur hjá Hvergerðingum. Keflavík komst fljótlega í 39-44 og gestirnir skoruðu svo þrettán stig í röð síðustu fjórar mínútur 3. leikhluta og breyttu stöðunni snarlega í 44-57.

Hamar vann jafnt og þétt upp forskot Keflavíkur í síðasta fjórðungnum og á síðustu tveimur mínútunum náði Hamar 9-2 áhlaupi og þá var munurinn orðinn aðeins fjögur stig, 68-72. Hins vegar voru bara sautján sekúndur eftir af leiknum þegar þarna var og sá tími dugði Hamri ekki til að komast yfir. Keflavík var komið í bónus og nýtti þrjú af sex vítaskotum sínum á lokasekúndunum og það dugði þeim til sigurs.

Di’Amber Johnson skoraði 26 stig fyrir Hamar, Fanney Lind Guðmundsdóttir 14, Marín Laufey Davíðsdóttir 13, Íris Ásgeirsdóttir 9, Sóley Guðgeirsdóttir 5 og þær Kristrún Rut Antonsdóttir og Katrín Eik Össurardóttir skoruðu tvö stig hvor. Marín og Sóley voru frákastahæstar, báðar með 10 fráköst.