Slavica með 30 stig í stórsigri

Hamarskonur halda sigurgöngu sinni áfram í Iceland Express-deildinni í körfubolta. Hamar vann Njarðvík í kvöld, 67-93.

Hamar var sterkari aðilinn allan leikinn og leiddi í hálfleik, 32-47. Munurinn jókst enn frekar í seinni hálfleik og sigur Hvergerðinga var aldrei í hættu.

Slavica Dimovska var stigahæst hjá Hamri með 30 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 25 og Jaleesa Butler 19 auk þess að taka 16 fráköst.

Forskot Hamars á toppnum jókst um tvö stig í kvöld því Keflavík sem situr í 2. sæti tapaði óvænt fyrir Grindavík. Hamar hefur 26 stig en Keflavík 24 og KR er í 3. sæti með 16 stig.