Slavica kláraði leikinn með flautukörfu

Slavica Dimovska skoraði þriggja stiga sigurkörfu utan af velli þegar Hamar lagði KR, 79-76, í Iceland Express-deild kvenna í dag.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur en Hamarskonur byrjuðu betur og leiddu að loknum 1. leikhluta, 27-18. KR-ingar minnkuðu muninn niður í sex stig fyrir leikhlé en þá var staðan 42-36.

Munurinn hélst svipaður langt fram í seinni hálfleik en þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum var staðan 72-64 fyrir Hamar. Þá skoraði KR 11 stig í röð þar sem Margrét Kara Sturludóttir setti tvo frábæra þrista með skömmu millibili og KR leiddi 72-75 með 50 sekúndur eftir á klukkunni.

Jaleesa Butler minnkaði muninni í tvö stig með því að nýta annað af tveimur vítaskotum sínum. Hamar náði boltanum aftur og Fanney Lind Guðmundsdóttir var ísköld þegar hún jarðaði frábæran þrist þegar 12 sekúndur voru eftir og breytti stöðunni í 76-75. KR geystist í sókn þar sem brotið var á Margréti Köru. Hún fór á vítalínuna og skoraði úr seinna vítinu. Staðan jöfn, 76-76, og þrjár sekúndur eftir á klukkunni.

Ágúst Björgvinsson tók leikhlé og Hamar byrjaði með boltann við miðju. Guðbjörg Sverrisdóttir sendi á Slavicu sem negldi boltanum beint ofan í körfuna utan af velli í sömu mund og lokaflautan gall.

Jaleesa Butler átti stórleik fyrir Hamar með 28 stig og 20 fráköst. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 19 stig og Slavica Dimovska 17.

Hjá KR var Margrét Kara með 28 stig og Hildur Sigurðardóttir 24. Hafrún Hálfdánardóttir skoraði 4 stig og tók 5 fráköst gegn sínum gömlu félögum.