Sláin út hjá Selfyssingum

Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Selfyssingar heimsóttu Leiknismenn í Breiðholtið í fallbaráttuslag í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Jafnræði var með liðunum en Leiknir nýtti sín færi og sigraði 2-0.

Leiknir var í fallsæti fyrir leikinn en liðin höfðu sætaskipti með þessum úrslitum. Selfoss er í 11. sæti með 19 stig fyrir lokaumferðina, þar sem liðið mætir Keflavík. Þar fyrir ofan eru Grindavík með 21 stig og Fylkir og Leiknir með 20 stig. Fjölnismenn verma botnsætið og eru fallnir niður í 2. deildina.

Bæði Leiknir og Selfoss mættu af hugrekki inn í leikinn í dag og reyndu að finna lausnir í sókninni. Leiknismenn komust yfir á 33. mínútu eftir slæm mistök í vörn Selfoss. Staðan var 1-0 í hálfleik og heimamenn komust svo í 2-0 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Selfoss átti ágætar sóknir og boltinn fór tvisvar í þverslána á marki Leiknis, en inn vildi hann ekki.

Lokaumferðin fer fram laugardaginn 13. september og þá leika Selfyssingar á heimavelli gegn Keflavík.

Fyrri greinKA hafði betur á endasprettinum
Næsta greinLífsnauðsynlegur sigur Ægis