„Slagsmál eins og þau gerast skemmtilegust“

Eyrarbakkatröllið Ómar Vignir Helgason var sáttur í leikslok í gær eftir að Selfyssingar höfðu tryggt sér oddaleik gegn Aftureldingu í umspilinu um sæti í N1 deildinni í handbolta.

„Þetta var algjör snilld og loksins var almennileg barátta í liðinu hjá okkur. Við rifum okkur upp á rassgatinu enda var ekki annað í boði. Við vorum komnir með bakið upp að vegg eins og við höfum verið í allan vetur og það sýndi sig að við erum bestir þannig,“ sagði Ómar í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta var erfiður leikur í dag fyrir mig og liðið allt, ég er orðinn svo gamall,“ sagði Ómar sem var í stöðugri baráttu á línunni við Mosfellingana. Hann á von á hörkuleik í oddaleiknum að Varmá á þriðjudag þar sem Selfyssingar ætla sér að slá Aftureldingu út.

„Það verður sætt að klára þetta í Mosfellsbæ og það kemur ekki annað til greina en að taka þetta þar. Það verður hörkuleikur og alvöru slagsmál eins og þau gerast skemmtilegust,“ sagði Ómar að lokum.

Fyrri greinÞrúður stýrir Hafnardögum
Næsta greinEldur í rusli við Húsasmiðjuna