Slæmt tap gegn Fylki

Selfoss tapaði illa á útivelli gegn Fylki þegar liðin mættust í Olís-deild kvenna í handbolta í dag.

Eftir frekar jafnan fyrri hálfleik í Fylkishöllinni í dag voru það gestirnir frá Selfossi sem leiddu í leikhléi, 14-16.

Í síðari hálfleik var hins vegar annað uppi á teningnum. Heimamenn tóku öll völd á vellinum, jöfnuðu leikinn, náðu forystunni og juku hana jafnt og þétt.

Að lokum tryggðu Fylkiskonur sér tíu marka sigur, 39-29.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var atkvæðamest Selfyssinga með tíu mörk, næst kom Adina Maria Ghidoarca með sjö mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði fimm, Steinunn Hansdóttir og Hildur Einarsdóttir tvö mörk hvor og Hulda Dís Þrastardóttir, Elena Elísabet Birgisdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir eitt mark hver.

Eftir leikinn er Selfoss í 7. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 17 umferðir. Liðið tekur næst á móti Fram í íþróttahúsinu í Vallaskóla á Selfossi laugardaginn 6. febrúar kl. 14.