Skyldusigur á síðustu stundu

Ægismenn tryggðu sér 0-1 sigur gegn Stál-úlfi í uppbótartíma þegar liðin mættust í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Ægismönnum gekk illa að vinna á þéttri vörn Stál-úlfs í fyrri hálfleik og færin létu á sér standa. Matthías Björnsson komst næst því að skora en boltinn féll illa fyrir hann á gervigrasinu þegar hann fylgdi eftir skoti frá Aco Pandurevic og Matthías skaut beint á liggjandi markmann Stál-úlfs.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Ægismenn stjórnuðu leiknum en færin voru fá. Eyþór Guðnason lét tvívegis verja frá sér á línu en inn vildi boltinn ekki.

Það var ekki fyrr en komið var í uppbótartíma að Eyþór stangaði inn hornspyrnu frá Predrag Dordevic og tryggði Ægismönnum sigurinn.

Ægir er á toppi A-riðils með 28 stig, Sindri hefur 26 og Berserkir 25 og bæði liðin eiga leik til góða á Ægi. Ljóst er að tvö þessara liða munu tryggja sér sæti í nýju 3. deildinni með möguleika á sæti í 2. deild og þriðja liðið fer í umspil um sæti í nýju 3. deildinni. Röð liðanna mun þó ekki ráðast fyrr en að lokaumferðinni lokinni.