Skrifað undir samning um ULM 2020 á Selfossi

Gísli, Haukur og Guðríður ásamt fulltrúum keppenda frá HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fulltrúar Héraðssambandsins Skarphéðins, Sveitarfélagsins Árborgar og Ungmennafélags Íslands skrifuðu í kvöld undir samning um Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina árið 2020.

Undirritunin fór fram í íþróttahúsinu Iðu í leikhléi á leik Selfoss og FH í úrvalsdeild karla í handbolta. Það voru þau Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ og Guðríður Aadnegard, formaður HSK, sem skrifuðu undir samninginn.

Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið frá árinu 1992 og verður þetta í annað sinn sem það verður haldið á Selfossi. Mótið er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem 11-18 ára börn og ungmenni reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Ávallt er fjöldi viðburða í boði fyrir alla fjölskylduna og mótið orðið einn af helstu árlegum viðburðum fjölskyldunnar um hverja verslunarmannahelgi.

Fyrri greinSelfoss varð af mikilvægum stigum
Næsta greinAkranes siglir til Þorlákshafnar