Skrifað undir samning um „Stúdíó Sport hlaupið“

Aðalbjörg og Linda Rós við undirritun samningsins um Stúdíó Sport hlaupið. Ljósmynd/Aðsend

Hlaupahópurinn Frískir Flóamenn hefur gert nýjan samstarfssamning við verslunina Stúdíó Sport á Selfossi um nýtt keppnishlaup, Stúdíó Sport hlaupið, sem haldið verður þann 1. maí ár hvert.

Hlaupið verður í fyrsta sinn laugardaginn 1. maí 2021 en í boði verða 5 og 10 km vegalengdir auk skemmtiskokks/krakkahlaups.

Aðalbjörg Skúladóttir, formaður FF, og Linda Rós Jóhannesdóttir, annar eigenda Stúdíó Sport, skrifuðu undir samninginn í anddyri Sundhallar Selfoss, fyrir hlaupaæfingu síðastliðinn fimmtudag en hlaupaæfingar eru alla þriðjudaga og fimmtudaga frá Sundhöll Selfoss kl. 17:15 og á laugardögum kl. 10.

„Æfingarnar eru öllum opnar og án gjalds. Við hvetjum alla áhugasama til að vera duglegir að æfa sig í vetur og stefna að þátttöku í nýju hlaupi næsta vor og að sjálfsögðu eru allir velkomnir á hlaupaæfingar,“ segir Aðalbjörg.

Fyrri greinSelfoss enn í stigaleit
Næsta greinFreyvangur 6 fékk umhverfisverðlaun