Skriðsund bætir, hressir og kætir

Um nokkra hríð hefur Sunddeild Hamars í Hveragerði boðið upp á sérstök skriðsunds námskeið en námskeiðin fara fram tvisvar í viku í sundlauginni í Laugarskarði og eru ætluð fólki á öllum aldri.

Það er Magnús Tryggvason, sundþjálfari, sem hefur umsjón með námskeiðunum en hann hefur þjálfað sund í meira en þrjátíu ár. Magnús er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur en er búsettur á Selfossi.

En hvers vegna sérstök skriðsundsnámskeið? Magnús segir að á árum áður hafi skriðsund ekki verið kennt mjög mikið í skólasundi. „Fyrir þá sem eru að nota sund sem líkamsrækt þá er mikið meiri fjölbreytni í því að geta synt skriðsund og svo er líka hollt og gott fyrir kroppinn að synda eitthvað annað en bara bringusund. Þannig að skriðsund bætir, hressir og kætir,“ segir Magnús léttur.

Að sögn Magnúsar eru skriðsundsnámskeiðin aðeins hluti af þeirri þjónustu sem sunddeild Hamars veitir en hvert námskeið er tólf skipti. „Þetta er samt mjög frjálslegt. Það er engin skyldumæting hérna, tvisvar í viku því það getur alltaf komið eitthvað upp hjá fólki, eins og veikindi. Hvert námskeið er í sex vikur en þú mátt koma hvenær sem er ef þú vilt klára þessi tólf skipti,“ segir Magnús og bætir við að í raun séu skriðsundsnámskeiðin í gangi allan veturinn.

Sá elsti 85 ára
Þó að yfirskrift námskeiðsins sér skriðsund eru margir sem nýta sér þau til að yfirstíga hindranir þegar kemur að sundiðkun. „Það kom einu sinni kona til mín sem átti stráka sem voru orðnir miklu betri en hún í sundi en hún þorði varla í djúpu laugina. Svo hefur líka komið fólk á námskeiðin sem hefur orðið fyrir einhverjum áföllum í sundi. Þetta er því mjög fjölbreytt og það er mjög breiður hópur sem hefur komið.“

Og til að undirstrika fjölbreytnina segir Magnús að sá elsti sem hefur komið á námskeiðið sé 85 ára gamall og annar 75 ára gamall og hafi hann verið virkilega góður sundmaður.

Frekari upplýsingar um skriðsundsnámskeiðin eru að finna á Facebooksíðu Sunddeildar Hamars en hægt er að hafa samband við Magnús í gegnum hana.

Fyrri greinFSu steinlá í Njarðvík
Næsta greinHljómaskál í Skálholti