„Skref sem ég varð að taka“

Marvin Valdimarsson, körfuknattleiksmaður, hefur yfirgefið Hamar og gengið í raðir Stjörnunnar í Garðabæ.

„Ástæðan er einfaldlega sú að ég bý í Reykjavík með konu og lítið barn og við erum búin að koma okkur vel fyrir með allt okkar hafurtask hérna. Stjarnan er með flottan þjálfara og leikmenn og mikinn metnað auk þess sem það er stutt á æfingar fyrir mig,“ sagði Marvin í samtali við sunnlenska.is.

Marvin lék frábærlega í Iceland Express-deildinni í vetur og það kom engum á óvart að mörg félög föluðust eftir kröftum hans þegar mótinu var lokið. „Ég fékk tilboð frá fimm liðum en mér leist strax vel á Stjörnuna og er ánægður að vera kominn hingað,“ segir stórskyttan sem einnig mun þjálfa yngri flokka hjá Stjörnunni.

Marvin steig sín fyrstu skref í körfuboltanum með Selfyssingum en hefur leikið í Hveragerði stærstan hluta ferilsins ef frá er talið hliðarskref í Fjölni. „Auðvitað er erfitt að yfirgefa Hveragerði þar sem ég hef átt mín bestu ár. Það er erfitt að fara frá Gústa, Svavari og Lalla formanni, sem eru frábærir samherjar en þetta er skref sem ég varð að taka. Ég er að nálgast þrítugt og mig langar í titil,“ sagði Marvin að lokum.