Skráningu á unglingalandsmót lýkur á mánudag

Frá setningarathöfn Unglingalandsmótsins á Selfossi 2022. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nú styttist í Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Mótið verður afar fjölbreytt og skemmtilegt, 18 íþróttagreinar í boði og gríðarlegur fjöldi af kynningum á mörgu skemmtilegu sem ekki þarf að skrá sig í.

Mikilvægt er að þátttakendur skrái sig í greinar mótsins eftir að búið er að greiða þátttökugjald. Opið er fyrir skráningu greina mótsins til miðnættis mánudagsins 31. júlí. Athygli keppenda af sambandssvæði HSK er vakin á því að allir þátttakendur HSK fá gefins bláa hettupeysu frá Jakó, sem verður afhent í Selinu við íþróttavöllinn á Selfossi mánudaginn 31. júlí frá 17:00 til 19:00.

Tónleikar á hverju kvöldi
Alla verslunarmannahelgina verða tónleikar í risastóru samkomutjaldi á mótssvæðinu. Tónleikarnir byrja strax á fimmtudagskvöldinu með DJ Heisa, sem hefur verið að gera það gott. Kvöldið eftir stígur skagfirska stuðbandið Danssveit Dósa á stokk og skrúfar gleðina í botn. Herra Hnetusmjör og Emmsjé Gauti ásamt Valdísi Valbjörnsdóttur kom svo fram á flottum tónleikum á laugardagskvöldinu. Unglingalandsmótinu lýkur svo á sunnudagskvöldinu með brekkusöng. Þar koma fram Magni Ásgeirsson, Jón Arnór og Baldur og Guðrún Árný.

Tjaldstæði innifalið í verðinu
Þátttökugjald á Unglingalandsmóti UMFÍ er aðeins 8.900 krónur. Innifalið í verðinu er tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna. Aðeins þarf að greiða aukalega fyrir rafmagn, sem er 5.000 krónur fyrir alla helgina.

Fyrri greinSigurmark í uppbótartíma í Suðurlandsslagnum
Næsta greinFjölbreytt fjölskyldu- og tónleikadagskrá í Hamingjunni