Skoruðu sex mörk í seinni hálfleik

Selfyssingar fagna marki Arons Fannars Birgissonar í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann stórsigur á Þrótti Vogum í 2. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 6-1 en Þróttur leiddi 0-1 í leikhléi.

Þróttarar komust yfir eftir aðeins 40 sekúndna leik eftir mikið klafs í vítateig Selfyssinga. Heimamenn virtust slegnir út af laginu í kjölfarið og náðu ekki að ógna neitt að ráði og Þróttur hafði góð tök á fyrri hálfleiknum og áttu meðal annars stangarskot á 12. mínútu.

Leikurinn gjörbreyttist í seinni hálfleik þar sem Selfyssingar lágu í sókn og gjörsamlega völtuðu yfir þróttlitla gestina. Aron Fannar Birgisson jafnaði á 52. mínútu og mínútu síðar kom Breki Baxter Selfyssingum yfir. Selfoss steig enn frekar á inngjöfina í kjölfarið og þeir Aron Fannar og Breki bættu við tveimur mörkum með stuttu millibili tíu mínútum síðar. Staðan allt í einu orðin 4-1 og ekkert lát á sóknum Selfyssinga.

Alexander Clive Vokes kom inná sem varamaður á 70. mínútu og mínútu síðar var hann búnn að skora fimmta mark Selfyssinga með góðu vinstri fótar skoti og á 82. mínútu innisiglaði Jose Manuel Lopez 6-1 sigur Selfoss þar sem hann skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Eftir fimm umferðir eru Selfyssingar einir á toppi deildarinnar með 13 stig en Þróttur er í 9. sæti með 4 stig.

Fyrri greinFæ klígju af síðustu mjólkurdropunum
Næsta greinHlutfallið er að lækka!