Skoraði með sinni fyrstu snertingu

Lilja og Jóhanna fagna sigrinum á Albaníu í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingarnir Jóhanna Elín Halldórsdóttir og Lilja Björk Unnarsdóttir skiluðu svo sannarlega sínu þegar U17 ára landslið Íslands í knattspyrnu vann 13-0 sigur á Albaníu í undankeppni EM í Albaníu í morgun.

Lilja Björk var í byrjunarliðinu og hún lagði upp þrjú mörk, þar af tvö með baneitruðum vinstrifótar aukaspyrnum í fyrri hálfleiknum. Staðan var 6-0 í leikhléi.

Á 62. mínútu kom Jóhanna Elín inná fyrir Lilju og hún var fljót að láta að sér kveða. Rúmri mínútu síðar átti Ísland skyndisókn og þar var Jóhanna mætt inn í vítateiginn og skoraði níunda mark Íslands með sinni fyrstu snertingu á boltann.

Þetta var seinni leikur Íslands í riðlinum en þær unnu Lúxemborg 6-0 á laugardaginn og fara því sannfærandi upp í A-deildina.

Þrettán – núll! Lilja og Jóhanna ánægðar með sigurinn. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinVel heppnað íslenskunámskeið fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn
Næsta greinHellisheiði og Þrengsli lokuð