Um síðustu helgi veitti íþrótta- æskulýðs- og menningarnefnd Flóahrepps verðlaun og viðurkenningu fyrir íþrótta- og afreksfólk Flóahrepps árið 2024.
Afhendingin fór fram á Fjöri í Flóa og titilinn að þessu sinni hlaut skólahreystilið Flóaskóla 2024 en þau sigruðu úrslit Skólahreystis það ár. Krakkarnir settu sér markmið, unnu að þeim, sýndu þrautseigju, seiglu, dugnað og styrk. Þau hafa orðið öðrum hvatning og verið jákvæðar fyrirmyndir.
Liðið skipuðu þau David Örn Aitken Sævarsson, Karólína Þórbergsdóttir, Ásrún Júlía Hansdóttir, Helgi Reynisson, Kristófer Máni Andrason og Magnea Bragadóttir.
Íþrótta- æskulýðs- og menningarnefnd ákvað einnig að veita sérstaka viðurkenningu til aðila sem hefur unnið ötullega að íþrótta- og æskulýðsmálum í sveitarfélaginu. Þessa viðurkenningu hlaut Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari í Flóaskóla, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar, þjálfari og stjórnarmaður í Þjótanda. Viðurkenningin var veitt fyrir ómetanlegt framlag og vinnu við öflugt og fjölbreytt íþróttastarf og heilsueflingu barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Þess má geta að Örvar er þjálfari skólahreystiliðs Flóaskóla.