Skokkað og gengið á Skálafell

Skálafell á Hellisheiði. Mynd úr safni. sunnlenska.is

Skokk- og gönguhópur Hamars hefur sett stefnuna á skokk- og göngudaga í byrjun hvers mánaðar næstu sex mánuðina.

Ætlunin er að allir geti tekið þátt án kostnaðar og þeir sem vilja hlaupa hluta leiða geti það en samt í samfloti við göngugarpa! Göngustjóri hópsins verður Sverrir Geir Ingibjartsson. Upphaf allra ferða verður við Sundlaugina Laugarskarði kl. 10.00 þar sem sameinast verður í bíla og ekið að áfangastað hverju sinni.

Stefnt er á að byrja á Skálafelli laugardaginn 5. febrúar kl.10.00. Hugmyndin er að skokkararnir byrji við Hellisheiðarveginn (þjóðveg 1) og skokki eftir vegi Orkuveitunar að Hverahlíðinni meðan aðrir keyra að Hverahlíðinni og hefja gönguna þar. Frá Hverahlíðinni liggur leiðin yfir slétt mosavaxið hraun að Skálafellinu en þar tekur við um 250m hækkun upp á Skálafellið. Vegalengdin (fram og til baka) er 5-8 km eftir því hvort byrjað verður við Hellisheiðarveginn eða Hverahlíðina.

Farið verður á Ingólfsfjall 5. mars, frá Alviðru og uppá Inghól og þaðan geta þeir sem vilja fara langt haldið niður að Sogni og áfram í Hveragerði, meðan hinir sem vilja hafa þetta innan eðlilegra marka fara sömu leið til baka að Alviðru.

Hugsanleg fjöll í framhaldi eru Vífilsfell, Búrfell í Grímsnesi, Reykjafjall, Hengillinn (Vörðu-Skeggi) og Tröllhetta en það verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Mæting verður í öllum tilfellum,eins og fyrr segir, við Laugarskarð og lagt af stað kl 10:00.

Þar sem nú er vetur getur veður og færð sett strik í reikninginn og því getur röð fjallana breyst.

Nánar á blogsíðu Skokkhóps Hamars http://skokkhopurhamars.blogcentral.is/