Skjaldbreiðarvegur reyndist röllurum raun

Haustrallý BÍKR fór fram um síðustu helgi í afleitu verðri, roki og úrhellisrigningu. Keppendur létu það þó ekki á sig fá en fjórtán áhafnir hófu keppni á laugardagsmorguninn.

Fyrsta sérleiðin lá um Skjaldbreiðarveg en sú leið hefur ekki verið ekin í rallkeppni undanfarin ár og því öllum keppendum ókunn. Var ljóst fyrir keppni að leiðin yrði mjög krefjandi fyrir áhafnir og ökutæki en veðrið hjálpaði ekki til. Kom það á daginn því einungis tíu áhafnir luku þessari fyrstu sérleið.

Því næst var haldið yfir á Uxahryggi en sú leið er rallýökumönnum vel kunnug. Voru Uxahryggir eknir fram og til baka en síðasta sérleiðin var ekin til baka á Skjaldbreiðarvegi. Reyndist sú sérleið keppendum og bifreiðum þeirra álika erfið og um morguninn en einungis sjö áhafnir náðu að ljúka þeirri leið og þar með keppninni.

Mikið var um bilanir og áföll, þeir frændur Henning Ólafsson og Sigurjón Þór Þrastarson féllu úr leið á fyrstu sérleið vegna bilunar í spindilkúlu. Voru það mikil vonbrigði þar sem Henning velti bíl sínum í síðustu keppni og féll þá einnig úr leik. Ein áhöfn varð fyrir því óláni að rúðuþurrkur gáfu sig, vegna mikillar rigningar var ómögulegt fyrir áhöfnina að ljúka keppninni.

Óheppnin elti fleiri áhafnir en þeir Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson urðu fyrir því óhappi á síðustu sérleið að spindilkúla gaf sig með þeim afleiðingum að þeir höfnuðu utan vegar og féllu úr leik. Þrátt fyrir þetta óhapp leiða þeir enn Íslandsmótið og eru í góðri stöðu til að tryggja sér titilinn í síðustu keppni ársins en til þess nægir þeim sjötta sætið.

Lokaúrslit í keppni helgarinnar urðu þannig að Guðni Freyr Ómarsson og Pálmi Jón Gíslason á Subaru urðu í fyrsta sæti en hjónin Ólafur Þór Ólafsson og Tinna Rós Vilhjálmsdóttir, einnig á Subaru, náðu öðru sæti. Þorkell Símonarson og Þórarinn K. Þórarinsson, sem aka á Toyota Hilux, urðu í því þriðja en þeir sigruðu jafnframt í jeppaflokki. Skilja örfá stig að áhafnir í efstu tveimur sætum jeppaflokks og spennan mikil.

Hverjir hampa Íslandsmeistaratitlum er enn óljóst en lokaumferðin verður haldin þann 17. október næstkomandi, væntanlega á Suður- og Vesturlandi.

Fyrri greinForsala á Hátíð í bæ hefst 9. október
Næsta greinBærinn kaupir Edenlóðina