Skemmtilegra að spila en æfa

Haukur Þrastarson skoraði 6 mörk fyrir Selfoss og sendi 12 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu seiglusigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 28-23, á heimavelli. Selfoss gerði út um leikinn á lokakaflanum eftir mikla baráttu.

„Þetta var fínasti leikur hjá okkur. Framararnir voru mjög þéttir og gáfu okkur ekkert þannig að við þurftum virkilega að hafa fyrir þessum tveim stigum. Framararnir voru flottir og bara kredit á þá. Ég er ánægður með okkar leik, þetta er allt í rétta átt,“ sagði Haukur Þrastarson, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar léku í EHF-bikarnum gegn Azoty-Puławy í Póllandi um síðustu helgi og eiga erfiðan leik fyrir höndum heima um næstu helgi. Eru menn ekkert þreyttir eða lemstraðir að fá leik svona í miðri viku á milli þessara erfiðu verkefna?

„Nei, ég held ekki. Við hugsum bara vel um okkur og það er mikilvægt að fá góða endurheimt. Það er þétt álag en það er skemmtilegra að spila heldur en að vera á æfingum,“ bætti Haukur við að lokum.

Selfoss gaf í á síðasta korterinu
Selfoss var skrefinu á undan allan tímann en Framarar gáfu ekkert eftir lengi vel og tóku vel á þeim vínrauðu í vörninni. Selfoss náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik en staðan var 13-11 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Selfyssingar voru áfram sterkari en Framliðið var aldrei langt undan. Munurinn var lengi þrjú mörk en Fram náði að minnka muninn í eitt mark, 19-18, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Þá stigu Selfyssingar aftur á bensíngjöfina og keyrðu yfir gestina á lokakaflanum.

Haukur átti þátt í 18 mörkum
Haukur Þrastarson átti stórleik fyrir Selfoss, skoraði 6 mörk, sendi 12 stoðsendingar og var með 7 brotin fríköst í vörninni. Árni Steinn Steinþórsson var sömuleiðis öflugur, en hann var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 7/3 mörk og 9 brotin fríköst í vörninni. Hergeir Grímsson skoraði 6 mörk í leiknum og var frábær í fyrri hálfleik bæði í vörn og sókn, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 5 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson 3 og Elvar Örn Jónsson 1.

Pawel Kiepulski varði 12/2 skot í leiknum, flest í fyrri hálfleik. Hann var með 37% markvörslu og varði bæði vítaskotin sem hann þurfti að reyna sig við. Sölvi Ólafsson varði 3 skot og var sömuleiðis með 37% markvörslu.

Selfoss hefur nú 14 stig í 2. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og topplið Hauka. Framarar eru hins vegar í næst neðsta sætinu með 5 stig.

Fyrri greinJóhanna ráðin hjúkrunarstjóri
Næsta greinVal