Skemmtileg stemmning á fyrsta móti Hengils

Fyrsta mót Lyftingafélagsins Hengils var haldið í Hveragerði síðastliðinn laugardag. Einar Alexander Haraldsson sigraði í karlaflokki og Aníta Líf Aradóttir í kvennaflokki.

Um var að ræða innanfélagsmót þar sem keppt var í snörun og jafnhöttun. Keppt var eftir Sinclair kerfi en þar er líkamsþyngd keppenda tekin inn í reikniformúlu ásamt þeirri þyngd sem lyft er og því er ekki keppt í þyngdarflokkum heldur einungis í karla og kvennaflokki.

Lögð var áhersla á að sem flestir gætu spreytt sig í keppni til þess að geta öðlast færni og reynslu á því sviði. Það var því skemmtilega blandaður hópur keppenda sem mætti til leiks, allt frá því að vera byrjendur í greininni til þess að vera vant keppnisfólk.

Fjórtán einstaklingar skráðu sig til keppni, sjö karlar og sjö konur sem öll stóðu sig með stakri prýði. Andrúmsloftið á keppnisstað var einstaklega skemmtilegt, margir áhorfendur mættu á mótsstað og hvöttu keppendur duglega við aflraunir sínar.

Einar Alexander Haraldsson sigraði í karlaflokki með 259,2 stig, annar varð Jan Hinrik Hansen með 245,2 stig og þriðji Hlynur Kárason með 240,7 stig.

Í kvennaflokki sigraði Aníta Líf Aradóttir með 181 stig, önnur varð Harpa Almarsdóttir með 161,1 stig og þriðja Anna Guðrún Halldórsdóttir með 144,3 stig.

Lyftingafélagið Hengill var stofnað fyrr á þessu ári og hefur aðsetur að Skólamörk 6 í Hveragerði, nánar tiltekið í kjallara íþróttahússins í sömu aðstöðu og Crossfit Hengill er til húsa. Megin markið félagsins er að stuðla að og efla æfingu ólympískra lyftinga á Suðurlandi. Stjórn félagsins gerir ráð fyrir mikilli grósku í Ólympískum lyftingum á Suðurlandi á komandi misserum og er strax farin að ráðgera næstu mót.

Kjörís, Vífilfell og Sportvörur styrktu Hengil til mótahaldsins á laugardag í formi veglegra vinninga.

Upplýsingar um félagið má finna á Facebook.


Aníta Líf í jafnhöttun. Ljósmynd/Hengill


Einar Alexander í snörun. Ljósmynd/Hengill

Fyrri greinÍbúðalánasjóður selur tuttugu eignir á Suðurlandi
Næsta greinEnginn meðhjálpari eða kirkjuvörður í Skálholti