Skemmtileg fimleikahelgi hjá Selfyssingum

5. flokkur Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

Um síðustu helgi fór fram Vormót yngri flokka í hópfimleikum en mótið var haldið í Kópavogi.

Selfoss átti sex lið á mótinu, eitt lið í kky, þrjú í 4. flokki og tvö í 5. flokki. Þetta var síðasta mót þeirra í vetur en eldri flokkarnir keppa á sínu vormóti næstu helgi og á Íslandsmóti síðustu helgina í maí.

Í 4. flokki átti Selfoss eitt lið í hverri deild, A-deild, B-deild og C-deild. Liðin í A- og B-deildinni áttu frábæran dag og urðu bæði í 1. sæti í sinni deild, skiluðu hreinum æfingum og nutu sín vel. Í C deildinni var 4. flokkur-2 að keppa, en þær eru á yngra ári í flokknum. Þær áttu líka góðan dag, sýndu miklar framfarir og leikgleðin var mikil. Liðið lenti í 2. sæti á gólfi og skiluðu þar hreinum æfingum og í 6. sæti samanlagt af 11. liðum.

Selfossstrákarnir í kky kepptu í stökkfimiflokknum þar sem þeir lentu í 3. sæti á dýnu. Strákarnir hafa verið að vinna upp mikinn erfiðleika í vetur og náð framförum þar. Þeir sýndu flotta liðsheild og lentu samtals í 5. sæti af níu liðum og eiga enn mikið inni.

5. flokkur mætti á sitt annað mót á vegum Fimleikasambandsins. Á fyrra mótinu þeirra fengu þær viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna en þar sem þetta var þeirra síðasta mót á önninni fengu þær verðlaunapening í viðurkenningarskyni. Það var mjög gaman að fylgjast með flokknum en þær sýndu nýjar æfingar, stóðu sig vel og áttu góða upplifun. Á næsta ári keppa þær á yngra ári í 4. flokki og byrja þá að fá einkunnir og keppa í deildum.

Heilt yfir var þetta skemmtileg fimleikahelgi þar sem liðin fengu að sýna þær æfingar sem þau hafa verið að æfa í vetur fyrir framan fullan sal af áhorfendum, sem er stórt skref fyrir mörg liðanna.

4. flokkur Selfoss. Ljósmynd/Aðsend
4. flokkur-2. Ljósmynd/Aðsend
Selfoss kky. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSindratorfæran á Hellu um næstu helgi
Næsta greinTæpar 110 milljónir króna í verkefni á Suðurlandi