Skellur í fyrsta leik

Selfoss og Grótta mættust í kvöld í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta. Leikurinn fór fram á Seltjarnarnesi þar sem Grótta vann öruggan tíu marka sigur.

Grótta hafði frumkvæðið framan af en liðin skoruðu lítið og Selfoss kom knettinum til dæmis aðeins fjórum sinnum í netið á fyrstu tuttugu mínútunum. Þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik hafði Grótta 9-6 forystu en Selfyssingum tókst að jafna, 9-9, þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Í kjölfarið tók Grótta leikhlé og skoraði svo síðustu þrjú mörkin í fyrri hálfleik, 12-9 í hálfleik.

Það gekk hvorki né rak hjá Selfyssingum í seinni hálfleik. Grótta hóf hálfleikinn á 4-1 áhlaupi og staðan þá orðin 16-10. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Gróttu en lokatölur urðu 27-17.

Liðin mætast á Selfossi á laugardaginn kl. 16 og þarf Selfoss á sigri að halda í þeim leik, til þess að knýja fram oddaleik. Annars eru þær vínrauðu komnar í sumarfrí.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 5/3 mörk fyrir Selfoss, Steinunn Hansdóttir 4, Carmen Palamariu 3, Perla Ruth Albertsdóttir 2 og þær Adina Ghidoarca, Kristrún Steinþórsdóttir og Elena Birgisdóttir skoruðu allar 1 mark.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 4/1 skot í marki Selfoss og Katrín Ósk Magnúsdóttir 4.

Fyrri greinLionsklúbbarnir héldu svæðishátíð
Næsta greinTónleikar til heiðurs Cole Porter