Skelfilegur lokakafli Þórsara

Þór Þorlákshöfn tapaði í framlengdum leik þegar liðið tók á móti Njarðvík í 1. umferð Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld. Njarðvík sigraði með flautukörfu, 82-84.

Þórsarar höfðu frumkvæðið framan af fyrsta leikhluta og leiddu 21-12 þegar sjö og hálf mínúta voru liðnar af leiknum. Njarðvíkingar skoruðu hins vegar átta síðustu stigin í leikhlutanum og minnkuðu muninn í 21-20.

Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta en Þór var alltaf skrefi á undan og staðan í hálfleik var 43-37.

Í upphafi 3. leikhluta virtist sem Þórsarar ætluðu að sigla leiknum í örugga höfn. Þeir byrjuðu leikhlutann á 16-3 leikkafla og breyttu stöðunni í 59-40. Þá tóku Njarðvíkingar loksins við sér og minnkuðu muninn í 11 stig áður en leikhlutanum lauk, 67-56.

Lykilmenn Þórsara lentu snemma í villuvandræðum enda þrír dómarar á leiknum og allir duglegir við að flauta. Robert Diggs fékk sína fimmtu villu undir lok 3. leikhluta og Darrell Flake fauk útaf þegar síðasti fjórðungurinn var tæplega hálfnaður.

Án þeirra tveggja lentu Þórsarar oft undir í baráttunni undir körfunum en það var þó ekki lykilatriði í tapinu í kvöld, heldur það að liðið hitti ákaflega illa úr skotum sínum síðustu tuttugu mínútur leiksins.

Þannig voru Þórsarar hreinlega ekki með í síðasta leikhlutanum þar sem þeir hittu ekki neitt og klikkuðu meðal annars í sjö af tólf vítaskotum á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Þverrandi gengi Þórsara var olía á eldinn í Njarðvíkurliðinu sem var komið alveg á hæla Þórs þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðasta leikhlutanum, 69-64. Njarðvík komst yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum og leiddi 72-74 þegar lokamínútan rann upp.

Benjamin Smith skoraði hins vegar fjögur stig í röð fyrir Þór og leikurinn virtist vera að detta þeirra megin en Njarðvík fékk níu sekúndur til að svara fyrir sig og það dugði – Marcus Van tróð úr galopnu færi á lokasekúndunum og tryggði Njarðvík framlengingu.

Framlengingin var jöfn og lítið rúm til mistaka en Þórsarar héldu hins vegar áfram að gera fleiri mistök en Njarðvíkingar. Þriðji Þórsarinn til að fá fimm villur var Baldur Þór Ragnarsson þegar tæp mínúta var eftir af framlengingunni.

Skömmu síðar fékk Þór tvö víti, Smith nýtti aðeins annað þeirra til að jafna 82-82. Njarðvík brunaði í sókn en Smith stal boltanum og kom í hendur Emils Karels Einarssonar sem hitti ekki úr sniðskoti með tíu sekúndur eftir á klukkunni.

Njarðvík náði varnarfrákastinu og brunaði í sókn þar sem Jeron Belin skoraði með sniðskoti um leið og flautað var til leiksloka.

Sannarlega súrt fyrir Þórsara að missa unnin leik úr höndunum með þessum skelfilega lokakafla en liðinu gekk hreinlega ekkert undir körfunni á síðustu mínútum leiksins.

Benjamin Smith var stigahæstur Þórsara með 28 stig og heilt yfir góðan leik. Grétar Erlendsson skoraði 14 stig, Darrell Flake 13 og Darri Hilmarsson 11.

Næsti leikur Þórs er gegn ÍR á útivelli á föstudagskvöld.