„Skelfilegt að þurfa að fara í framlengingu“

Selfoss og Hamar eru bæði úr leik í Borgunarbikarnum í knattspyrnu eftir að hafa tapað leikjum sínum í 32-liða úrslitunum í kvöld.

Selfoss heimsótti ÍA á Akranes og þar var leikurinn markalaus allt fram á 81. mínútu að Skagamenn komust yfir. Þremur mínútum fyrir leikslok jafnaði Sigurður Eyberg Guðlaugsson með viðstöðulausu skoti eftir hornspyrnu.

Framlenging varð raunin og þar var leikurinn í járnum fyrstu fimmtán mínúturnar. Selfyssingar gáfu hins vegar eftir í síðari hálfleik framlengingunnar og á 108. mínútu leiksins skoruðu Skagamenn eftir slæm varnarmistök Selfoss. ÍA fékk tækifæri til að bæta við fleiri mörkum en tveimur mínútum fyrir leikslok fengu þeir vítaspyrnu eftir að Andy Pew braut af sér í teignum. Vítaspyrnan fór yfir markið og Selfoss geystist í sókn þar sem Skagamenn björguðu á marklínu frá Andy eftir mikinn atgang í vítateig ÍA.

„Þegar maður er svona nálægt þessu þá er maður svekktur að komast ekki lengra,“ sagði Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við stóðum vel í Skagamönnum og gert góða hluti hérna í kvöld. Því miður skoruðu þeir eftir klaufaskap okkar í framlengingunni, annars hefðum við farið í vítaspyrnukeppni.“

Næsti leikur Selfyssinga í 1. deildinni er eftir tvo daga á erfiðum útivelli á Ísafirði. „Það er skelfilegt að þurfa að fara í framlengingu en við hugsum ekki um það og reynum að ná úr okkur þreytunni og vera til í leikinn við BÍ. Það er hrikalega dapurt að lenda í því að fá ekki nema tveggja daga hvíld þegar þú ert með bikarkeppnina inn á milli umferða í deildinni, mér finnst það ekki gott skipulag,“ sagði Gunnar að lokum.

Í Hveragerði kom Tindastóll í heimsókn. Fyrri hálfleikur var markalaus en Tindastóll komst yfir á upphafsmínútum síðari hálfleiks og bætti svo við öðru marki á 62. mínútu. Hamarsmenn voru óheppnir að ná ekki neinu út úr leiknum því þeir áttu margar góðar sóknir og fengu heilt yfir fleiri færi en gestirnir.

Undir lok leiksins settu Hamarsmenn góða pressu á gestina en hún skilaði sér of seint. Atli Hjaltested náði að klóra í bakkann fyrir Hamar á lokamínútu leiksins en nær komust Hvergerðingar ekki og fall úr bikarnum staðreynd, rétt eins og hjá nágrönnum þeirra á Selfossi.

Fyrri greinSelfoss fékk Val í bikarnum
Næsta greinSigrún Kristjáns: Ljósmæðraþjónusta allan sólarhringinn, allan ársins hring