Skelfileg byrjun hjá Hamri

Hamarsmenn fengu rassskellingu þegar þeir heimsóttu úrvalsdeildarlið Keflavíkur í Lengjubikarnum í körfubolta í kvöld. Keflavík sigraði 111-64.

Hamarsmenn byrjuðu illa í leiknum og skoruðu aðeins sex stig í 1. leikhluta. Í stöðunni 11-6 skoruðu heimamenn nítján stig í röð og leiddu, 30-6 að loknum fyrsta fjórðungnum.

Keflavík jók muninn um átta stig í viðbót í upphafi 2. leikhluta en þá vöknuðu Hamarsmenn úr dvalanum og náðu að minnka forskot heimamanna niður í 22 stig í hálfleik, 46-24.

Stigamunurinn hélst svipaður í 3. leikhluta en í þeim fjórða gerðu Keflvíkingar annað áhlaup, byrjuðu á 14-4 kafla og skoruðu svo tíu síðustu stig leiksins.

Halldór Gunnar Jónsson var stigahæstur hjá Hamri með 22 stig og Brandon Cotton skoraði 16. Bjarni Rúnar Lárusson skoraði 7 stig, Louie Kirkman, Kristinn Hólm Runólfsson og Bjartmar Halldórsson voru allir með 4 stig, Mikael Rúnar Kristjánsson skoraði 3, Ragnar Á. Nathanaelsson 2 auk þess að taka 10 fráköst og Svavar Páll Pálsson var sömuleiðis með 2 stig.