Skeiðsumarið hefst á morgun

Brávellir á Selfossi. Ljósmynd/Sleipnir

Nú styttist óðfluga í það að allir fljótustu vekringar landsins fari að etja kappi hver við annan á Skeiðleikum Baldvins og Þorvaldar á Brávöllum á Selfossi.

Fyrsta mótið verður haldið á morgun, miðvikudaginn 26. maí og hefst kl. 19:30. Leikarnir hafa fest sig í sessi sem einhverjir skemmtilegustu viðburðir keppnistímabilsins í hestaíþróttum.

Skeiðleikarnir verða með hefðbundnu sniði en um er að ræða fimm mót og fer það síðasta fram þann 18. ágúst. Stigahæsti knapi tímabilsins fær 100.000 gjafabréf frá Baldvini og Þorvaldi og það er því til mikils að vinna. Skeiðgreinar hafa verið í mikilli uppsveiflu síðustu ár og er engin ástæða til að ætla að það verði breyting á því í ár.

Skeiðfélaginu hlakkar til að taka á móti öllum á Brávöllum á Selfossi í sumar en Skeiðleikarnir verða einnig sýndir í beinni útsendingu á AlendisTV.

Sem fyrr segir verða fyrstu Skeiðleikarnir þann 26. maí en næstu mót eru 23. júní, 14. júlí, 28. júlí og það síðasta 18. ágúst.

Fyrri greinStærsti verksamningur í sögu sveitarfélagsins
Næsta greinSkrúðgarðyrkjumeistarinn sem endaði í leiktækjunum