Skallamark við Skutulsfjörð dugði ekki til

Gary Martin skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar misstu af mikilvægum stigum í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir heimsóttu Vestra á Eyrina við Skutulsfjörð. Heimamenn höfðu 2-1 sigur.

Það var jafnræði með liðunum í upphafi en Selfyssingar sofnuðu svo illilega á verðinum í stutta stund og Vestri skoraði tvö mörk á þriggja mínútna kafla. Vestramenn voru líklegri í kjölfarið en á 26. mínútu minnkaði Gary Martin muninn með frábæru skallamarki eftir magnaða sendingu Ingva Rafns Óskarssonar af hægri kantinum. Bæði lið fengu fín færi í kjölfarið en staðan var 2-1 í hálfleik

Bæði lið áttu ágætar sóknir í upphafi seinni hálfleiks en fljótlega náðu Selfyssingar yfirhöndinni og höfðu leikinn í höndum sér til leiksloka. Færin létu þó á sér standa en það besta fékk Gary þegar hann slapp innfyrir á 72. mínútu en skaut rétt yfir markið.

Með sigrinum fer Vestri upp í 5. sætið með 23 stig en Selfoss er áfram í 7. sæti með 19 stig.

Fyrri greinJørgensen bjargaði stigi fyrir Selfoss
Næsta greinSunnlendingar unnu til fjölda verðlauna á Unglingalandsmótinu